Innlent

Klippti fingur af með greinaklippu

Flest ofbeldisverkanna voru unnin þar.
Flest ofbeldisverkanna voru unnin þar.

Steindór Hreinn Veigarsson, maður á þrítugsaldri, hefur verið dæmdur í fjögurra ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir hrottafengnar líkamsárásir. Kristján Halldór Jensson, sem einnig er á þrítugsaldri, var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir sömu sakir. Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað upp dóminn.

Þessir tveir ofbeldismenn réðust meðal annars á mann á Akureyri. Kristján Halldór sló hann með hafnaboltakylfu í höfuðið og lét síðan spörkin dynja á honum. Steindór Hreinn klippti síðan litla fingur vinstri handar mannsins af við miðkjúku, með greinaklippum.

Steindór Hreinn réðst einnig á konu sem ók leigubíl í mars á síðasta ári og barði hana síendurtekið í höfuðið.

Í maí ruddust Kristján Halldór og Steindór Hreinn, ásamt þriðja manni, inn til manns á Akureyri. Hinn síðarnefndi barði manninn í höfuðið svo hann þríbrotnaði í andliti. Klukkustund síðar ruddust hinir sömu inn í aðra íbúð og brutu þrjú andlitsbein í húsráðanda. Steindór Hreinn var dæmdur fyrir tvær líkamsárásir til viðbótar ofangreindum. Hann og Kristján Halldór voru dæmdir til að greiða fórnarlömbunum samtals um tvær milljónir króna í miskabætur. Þá voru tvímenningarnir dæmdir til að greiða sakarkostnað. Þeir eiga báðir langan sakaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×