Innlent

Krakkar brutu framrúðu með snjóbolta

Myndin tengist ekki fréttinni.
Myndin tengist ekki fréttinni.

Lögreglan hafði afskipti af nokkrum krökkum í Kópavogi nú síðdegis en þau voru að kasta snjóboltum í bíla. Ekki vildi betur til en að framrúða í bíl brotnaði á einum bílnum og var ökumaður hans næstum búinn að missa stjórn á bifreiðinni. Nokkuð tjón varð því á bifreiðinni en foreldrum krakkanna var gert viðvart.

Í nótt voru síðan höfð afskipti af þremur piltum sem höfðu brotið flöskur í Hlíðunum. Þegar leitað var eftir skýringum á athæfi þeirra var fátt um svör en á þeim mátti helst skilja að þetta hefði verið gert í gamni. Félögunum var gert grein fyrir að svona sóðaskapur væri ólíðandi og voru þeir látnir fjarlægja öll glerbrotin eftir sig. Þegar allt var orðið hreint á ný var þeim leyft að halda ferð sinni áfram og vonandi hafa þeir lært sína lexíu.

Um hádegisbil var unglingspiltur staðinn að veggjakroti í strætisvagni í Háaleitishverfi og var lagt hald á tvo úðabrúsa og tússpenna sem hann var með í fórum sínum. Kauði var líka með myndavél meðferðis og hafði tekið myndir af öðru veggjakroti. Ekki er ljóst hvort hann hugðist mynda veggjakrotið sitt í strætisvagninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×