Innlent

Þrjú hundruð þúsund íslenskukennararar virkjaðir

Til stendur að virkja um 300 þúsund íslenskukennara með sérstöku átaki nokkurra félaga sem miðar að því að þjálfa erlenda starfsmenn í íslensku.

Það eru Alþjóðahús, ASÍ, Efling, Samtök verslunar og þjónustu og VR sem standa fyrir átakinu og verður því hleypt af stokkunum í dag með útgáfu fjölmargra barmerkja sem útlendingar verða hvattir til að nota.

Á þeim stendur meðal annars: Ég er að læra íslensku, íslenska er mínar ær og kýr, er íslenska ekkert mál? og hvernig á að fallbeygja kýr. Átakið kemur í kjölfar töluverðrar umræðu í samfélaginu um fjölgun erlendra starfsmanna hér á landi, ekki síst í þjónustustörfum, og miklvægi þess að kenna þeim íslensku. Bent er á í tilkynningu frá Alþjóðahúsi að afgreiðslufólki sem talar enga eða litla íslensku fjölgi ört vegna þess að verslunum hafi gengið illa að manna að fullu störf í afgreiðslu með innlendu launafólki.

Með barmmerkjunum á að minna Íslendinga á að það tekur tíma að læra nýtt mál og virkja þá í að kenna útlendingum íslensku. Þannig hvetja félögin fólk til að tala ekki ensku að fyrra bragði og að gefa sér tíma til að hlusta og eiga samræður á íslensku þrátt fyrir takmarkaðan orðaforða viðmælanda.

Barmmerkjunum verður dreift til aðildarfélaga ASÍ og aðildarfyrirtækja Samtaka verslunar og þjónustu um allt land og til símenntunarmiðstöðva. Þá verður hægt að hafa samband við Alþjóðahúsið, ASÍ, Eflingu eða VR til að fá fleiri merki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×