Innlent

Þörf á aukinni aðstoð í Bangladess

Alþjóða Rauði krossinn kallar eftir aukinni aðstoð fyrir þá sem urðu illa úti í yfirreið fellibyljarins Sidr yfir Bangladess á dögunum.

Í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands er bent að þörf sé á 1,4 milljörðum króna til þess að hjálpa um 1,2 milljónum manna sem eiga um sárt að binda eftir hamfarirnar. Þörf er á mat, húsaskjóli, heilbrigðisþjónustu og vatni í þeim héruðum sem urðu verst úti en auk þess verður viðbótarfjármagnið notað til uppbygginar og eflingu neyðarvarna.

Nýjustu tölur benda til þess að fellibylurinn Sidr hafi orðið um þrjú þúsund manns að bana og þá slösuðust um 35 þúsund manns. Þá er rúmlega 1.700 enn saknað.

 

Hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins í Bangladess er þegar í fullum gangi en Rauði kross Íslands sendi fyrir skemmstu þriggja milljóna króna framlag til neyðaraðstoðarinnar. Bendir Rauði krossinn á Söfnunarsímann 907 2020 fyrir þá sem vilja leggja fram framlög vegna hamfaranna í Bangladess. Við hvert símtal dragast frá 1.200 króna sem greiðast með næsta símreikningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×