Innlent

Versnandi veður á landinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður segist eiga von á vonskuveðri næsta sólarhringinn.
Sigurður segist eiga von á vonskuveðri næsta sólarhringinn.
Veður fer versnandi síðdegis og í kvöld á vesturhelmingi landsins og við suðaustur ströndina. Búast má við stormi og sums staðar ofsaveðri. Vindhviður við fjöll geta orðið 40-50 metrar á sekúndu á þessum slóðum.

Veðurhæðin nær hámarki nálægt miðnætti en þó ætti að vera orðið víða mjög hvasst um sex, sjö leytið í kvöld á þessum slóðum. „Vindáttin er austlæg og er því ekki sú versta fyrir Kjalarnes og Hafnarfjall. Engu að síður gæti orðið afar hviðukennt veður á þeim slóðum," segir Sigurður Ragnarsson, veðurfræðingur á fréttastofu Stöðvar 2. Hann segir að horfur bendi til þess að ekkert ferðaveður verði á vestanverðu landinu og með suðurströndinni í kvöld og í nótt. „Það verður töluvert vatnsveður sem fylgir þessu á sunnanverðu og vestanverðu landinu en hætt við snjókomu á fjöllum. Lengst af verður vindur hægrur á norðuraustur- og austurlandi," segir Sigurður.

Sigurður segir að veðurhæðin gangi ekki niður fyrr en seint annað kvöld.

Herjólfur, sem siglir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, er búinn að aflýsa seinni ferð í dag vegna veðurs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×