Enski boltinn

Wenger og Ljungberg ósáttir

NordicPhotos/GettyImages

Sænska dagblaðið Expressen hefur eftir vini Freddy Ljungberg hjá Arsenal að Arsene Wenger knattspyrnustjóri sé að bola honum frá félaginu. Wenger á að hafa gert Svíanum það ljóst að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Arsenal.

"Arsene er upptekinn af því að búa til nýtt ofur-lið hjá Arsenal og Freddie er ekki inni í þeim plönum. Freddie hefur alltaf talið að hann ætti eftir að ljúka ferlinum hjá Arsenal - en nú virðist sem Wenger sé búinn að snúa bakinu alfarið við honum," var haft eftir heimildamanni blaðsins.

Annars hefur gengið orðrómur um það á Englandi undanfarna daga að hinn 29 ára gamli Ljungberg sé á leið til liða eins og Tottenham eða West Ham, en Eggert Magnússon blæs á það.

"Við höfum ekki sett okkur í samband við Arsenal vegna Ljungberg. Bresku blöðin eru mjög iðin við að orða okkur við fjölda leikmanna - en það er ekkert til í þessu," sagði Eggert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×