Innlent

Ráðherrar vilja verja byggð í Árneshreppi

Vinafélag Árneshrepps hefur verið stofnað til að freista þess að bjarga fámennasta sveitarfélagi landsins frá því að leggjast í eyði. Tveir ráðherrar gerðust fyrstu stofnfélagar.

Árneshreppur er nyrsta byggð í Strandasýslu. Fyrir miðja síðustu öld bjuggu þar yfir fimmhundruð manns. Nú er íbúafjöldinn kominn niður í fimmtíu og tvísýnt orðið um framtíð heilsársbúsetu enda aðeins tvö börn eftir í skólanum. Hrafn Jökulsson rithöfundur, sem fór þangað átta ára gamall í sveit, er nú aftur kominn í hóp íbúa Árneshrepps en í dag kom út bók hans, Þar sem vegurinn endar. Þar vitjar Hrafn sveitarinnar að nýju, eins og segir á bókarkápu, en í útgáfuhófi síðdegis var stofnað til Vinafélags Árneshrepps. Fyrstur til að skrá sig var Össur Skarphéðinsson, ráðherra byggðamála. Næstur kom Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þriðji varð þingmaður Vinstri grænna, Atli Gíslason. Oddviti Árneshepps segir að þangað vanti ungt fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×