Strokufangarnir sem struku frá fangelsinu að Litla-Hrauni voru handteknir í húsi í miðborginni nú fyrir stundu. Bifreiðin sem þeir stálu í nótt er einnig komin fram. Mennirnir veittu enga mótspyrnu við handtökuna.
Þeir eru nú vistaðir í fangageymslum lögreglunnar á Hverfisgötu en að sögn lögreglu verða þeir fluttir austur á Litla-Hraun við fyrsta tækifæri. “Þar eiga þeir líka að vera,“ sagði lögreglumaður í samtali við Vísi.
Mennirnir stálu bílnum í Stóru Sandvík auk þess sem þeir komust yfir greiðslukort sem var í annari bifreið á sama stað. Þrátt fyrir strangt lögreglueftirlit komust þeir til höfuðborgarinnar en fundust í húsi í miðborginni eins og áður sagði.