Innlent

Nýr búðaklasi mun rísa á Laugavegi

Laugavegur 19 Byggt 1904 og verður rifið.
Laugavegur 19 Byggt 1904 og verður rifið. MYND/Stefán

Arkitektar munu fyrir lok þessa mánaðar skila hugmyndum að hönnun nýbyggingar við Laugaveg 17 til 21 og reitnum þar fyrir aftan að Smiðjustíg.

Benedikt T. Sigurðsson, hjá eignarhaldsfélaginu Festum sem á lóðir upp á samtals um fjögur þúsund fermetra á þessum reit, segir ljóst að húsið á Laugavegi 19, þar sem nú er veitingastaðurinn Indókína, verði rifið.

Heimild sé til að flytja Laugaveg 21, svokallað Hljómalindarhús, á annan stað í borginni en framtíð þess sé óráðin.

Einnig segir Benedikt að Smiðjustígur 4a þar sem nú er barinn Grandrokk verði rifinn. Hið sama gildi um bakhús á Laugavegi 17 en aðalhúsið muni standa þar áfram.

Benedikt segir of snemmt að segja nákvæmlega hvaða starfsemi verði í nýju byggingunum.

 

Laugavegur 21 Hljómalindarhúsið kann að verða flutt af Laugaveginum.

„Arkitektarnir fóru af stað með að þarna yrðu skrifstofur, verslun, þjónusta, veitingastaðir og að þar gæti verið hótel og íbúðir. Það gefur hins vegar auga leið að verslun verður á fyrstu hæðinni,“ segir Benedikt. Undir húsinu verður bílastæðakjallari.

Deiliskipulag fyrir þann hluta lóðar Festa sem snýr að Laugavegi er nokkurra ára gamalt. Benedikt segir eftir að vinna skipulag fyrir Smiðjustígshlutann. Það verði gert að fengnum tillögum arkitektanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×