Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur tónleika í Glerárkirkju á skírdag og flytur þá Örlagasinfóníuna eftir Beethoven og fiðlukon-sert eftir Max Bruch. Einleikari á fiðlu er Ari Þór Vilhjálmsson og stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.
Örlagasinfónían er eitt dáðasta tónverk tónlistarsögunnar og upphafsstefið þekkir hvert mannsbarn en haft er eftir tónskáldinu sjálfu að í því sé líkt og örlögin sjálf berji dyra. Verkið er mjög kraftmikið og hristir upp í hverjum sem er en er jafnframt mjög aðgengilegt.
Eftir Max Bruch verður fluttur konsert í g-moll fyrir fiðlu og hljómsveit. Fiðlukonsertinn er hugljúf tónsmíð en gerir miklar kröfur til einleikarans. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er nú á sínu fjórtánda starfsári.
Kjarni hljómsveitarinnar hefur frá upphafi verið kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri og hópur hljóðfæraleikara sem býr og starfar á landsbyggðinni. Á þessum tónleikum kemur einnig hópur hljóðfæraleikara af Reykjavíkursvæðinu til liðs við hljómsveitina.