Lífið

Erkióvinir eigast við á sviði

Eyvindur Karlsson hefur ekki miklar áhyggjur af viðureigninni við Gillzenegger og kallar erkióvin sinn vitlaust krútt.
Eyvindur Karlsson hefur ekki miklar áhyggjur af viðureigninni við Gillzenegger og kallar erkióvin sinn vitlaust krútt.

Keppnin um titilinn Fyndnasti maður Íslands stendur nú sem hæst. Á síðasta undanúrslitakvöldinu, sem fram fer í Austurbæ í kvöld, munu erkióvinirnir Eyvindur Karlsson og Egill „Gillzenegger“ Einarsson stíga á svið til að skemmta salnum.

„Þetta verður stærra en þegar Silvía Nótt og Geir Ólafs hittust á Gullkindinni,“ sagði Oddur Eysteinn Friðriksson, forsvarsmaður og einn eigandi keppninnar. „Í fyrra var ekki hægt að sjá grein eftir Gillzenegger án þess að hann minntist á Eyvind, og ekki hægt að hlusta á uppistand hjá Eyvindi án þess að hann talaði um Gillzenegger. Þeir hata hvor annan,“ sagði Oddur. Keppnin er send út á Skjá einum, og sagðist Oddur ekki vera frá því að ritskoða yrði rimmu þeirra kappa áður en til útsendingar kæmi. „Alveg pottþétt, þetta er „too hot for TV“,“ sagði hann léttur í bragði.



 

fyrsti myndarlegi grínistinn? Egill „Gillzenegger“ Einarsson segist brjóta blað í sögu uppistanda þegar hann stígur á svið, þar sem hann sé fyrsti myndarlegi grínistinn.

Eyvindur hefur fyrir löngu getið sér nafns í uppistandinu, en Egill þreytir hins vegar frumraun sína á fimmtudagskvöldið. Það var ekki á Eyvindi að heyra að hann óttaðist væntanlega viðureign. „Hann er bara krútt, og alveg ágætis gaur. Eða, ekki gaur, náttúrlega, hann rakar sig nú á rassinum,“ sagði Eyvindur, sem vildi ekki kalla Gillzenegger svarinn óvin sinn. „Hann er svo vitlaus, maður má ekki vera vondur við svona fólk,“ sagði hann alvarlegur. Spurður um undirbúning sagðist Eyvindur ekki hafa þurft að leggja mikið á sig, hann væri atvinnumaður. „Egill kannski. En ég fer alltaf að hlæja bara við að sjá hann,“ sagði Eyvindur, og kvaðst því búast við að skemmta sér vel.

 

harður slagur Það er hart barist um titilinn fyndnasti maður Íslands. Keppendur á öðru undanúrslitakvöldi voru þar engin undantekning, þó að þeir væru enn tiltölulega afslappaðir þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði.fréttablaðið/vilhelm

Egill „Gillzenegger“ sagði þetta fyrsta uppistand sitt brjóta blað í sögu slíkra. „Ég er fyrsti myndarlegi grínistinn. Þeir eru annars allir forljótir,“ sagði hann. Hann var ekki haldinn neinni minnimáttarkennd gagnvart Eyvindi. „Mér finnst bara fyndið að mér var boðið fyrsta „slottið“. Það er alltaf heiti gæinn sem byrjar kvöldið. Hann er búinn að rembast við að vera með uppistand í tíu ár, og svo kemur helmassaður gæi og hirðir af honum fyrsta sætið,“ sagði Egill, sem hefur ekki varið miklum tíma í undirbúning. „Það þarf ekki mikla vinnu til að skáka honum. Hann er ekki þekktur fyrir að vera fyndinn, hann er þekktur fyrir að vera feitur,“ sagði Egill, sjálfsöryggið uppmálað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×