Lífið

Úrið týndist eftir viku

Fermingardrengurinn Magnús Jónsson.
Fermingardrengurinn Magnús Jónsson. mynd/einkaeign

Magnús Jónsson leikari fermdist í Garðakirkju árið 1978 og hélt veislu í foreldrahúsum í Garðabæ. Magnús tók sér hlé frá æfingum á söngleiknum Gretti í Borgarleikhúsinu þar sem hann verður í hlutverki draugsins Gláms til þess að segja okkur frá fermingargjöfunum sem hann fékk.

„Ég fékk gullúr frá afa mínum og ömmu í fermingargjöf sem ég svo týndi eftir viku, Það var algjört klúður," segir Magnús Jónsson leikari þegar hann er spurður um eftirminnilegustu fermingargjöfina. „Hins vegar fékk ég langmest af peningum af öllum bekkjarsystkinum mínum," bætir Magnús við. „Ég man ekki eftir því að hafa notað þá í neitt gáfulegt. Ætli maður hafi ekki bara eytt þessu öllu í kúluspil og nammi."

Magnús hefur á orði að sér finnist krakkar fermdir allt of ungir. Þeir geti varla haft vit á því hvað sé rétt eða rangt fyrir þá á þessum aldri.

„Ég hef það á tilfinningunni að tilhugsunin um allar gjafirnar sem fermingarbörnin fái ráði miklu um að þau fermast. Mér finnst að fólk ætti að ná meiri þroska áður en það tekur þessa ákvörðun," segir Magnús áður en hann stekkur aftur upp á svið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×