Innlent

Vill auðvelda fólki að hætta að reykja

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir er fyrsti flutningsmaður.
Katrín Júlíusdóttir er fyrsti flutningsmaður.

Sjö þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingunni hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér að þeir sem selja tóbak í smásölu fái heimild til sölu nikótínlyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld. Það er Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að markmiðið með því sé að fjölga sölustöðum nikótínlyfja þannig að þau verði valkostur í stað tóbaks þar sem það er selt. Nikótínlyf sem seld eru í lausasölu eru í formi tyggigúmmís, plásturs, innsogs- og nefúðalyfs. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að nikótíntöflur sem einungis fást gegn framvísun lyfseðils og verði seld annarsstaðar en í apótekum.

Í samtali við Vísi sagði Katrín að sér þætti mjög einkennilegt að heimilt væri að selja tóbak og tjöru í verslunum en ekki mætti selja nikotínlyfin við hliðina á þeim. „Þeir sem vilja hætta að reykja verða að hafa lyfin við hliðina á tóbakinu í búðinni," segir Katrín. Hún leggur mikla áherslu á að sala lyfjanna muni lúta sömu reglum og sala tóbaks samkvæmt frumvarpinu. Katrín segir að þeir sem starfi að forvarnarmálum, svo sem læknar, telji þetta frumvarp jákvætt

Þetta er í þriðja skipti sem Katrín leggur frumvarpið fram en það fékk ekki efnislega afgreiðslu í fyrri skiptin. Katrín telur að líkurnar á því að málið verði afgreitt nú séu góðar. „Ég treysti því að heilbrigðisnefnd muni fara vel yfir þetta mál og það muni skila sér þaðan," segir Katrín. Hún bendir á sex aðrir þingmenn úr báðum þingflokkum flytji málið með sér og vonast til að það auki líkurnar á því að málið verði afgreitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×