Erlent

Minnast eins árs ártíðar í Frakklandi

Myndir af  Zyed Benna, til vinstri, og Bouna Traore, sem létust fyrir ári. Þeir eru orðnir hálfgerðir píslarvottar fátækra unglinga í félagsblokkum í úthverfum Parísar og víðar.
Myndir af Zyed Benna, til vinstri, og Bouna Traore, sem létust fyrir ári. Þeir eru orðnir hálfgerðir píslarvottar fátækra unglinga í félagsblokkum í úthverfum Parísar og víðar. MYND/AP

Yfir þúsund manns gengu fylktu liði í þögn í úthverfi Parísar í morgun til að minnast tveggja unglingsdrengja sem létust fyrir réttu ári síðan þegar þeir földu sig í rafmagnsskúr á flótta undan lögreglunni. Dauði þeirra varð kveikjan að ofbeldinu í úthverfum Parísar fyrir réttu ári síðan, sem entist í þrjár vikur.

Mikill viðbúnaður lögreglu hefur verið í París og víðar í Frakklandi undanfarna daga en áhyggjur manna beinast fyrst og fremst að kvöldinu í kvöld. Innanríkisráðherra Frakklands tilkynnti í gær að aukið lögreglulið verði sett í strætisvagna sem keyra um úthverfin þar sem ástandið var hvað verst fyrir ári síðan og þar sem kveikt hefur verið í fjórum strætisvögnum síðan á miðvikudag.

Skýrsla Upplýsingaþjónustu frönsku lögreglunnar sem franskir fjölmiðlar komust yfir í byrjun vikunnar varar meðal annars við því að skipulagt ofbeldi og óeirðir gætu átt sér stað þetta árið, í stað óskipulagðra bílabrenna sem voru vandamálið á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×