Innlent

Hvalveiðar í atvinnuskyni hefjast á ný

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tilkynnti á Alþingi í dag að atvinnuveiðar á hval yrðu hafnar á ný og að leyfðar yrðu veiðar á 9 langreyðum og 30 hrefnum til viðbótar við þær 39 hrefnur sem veiddar verða í vísindaskyni á yfirstandandi fiskveiðiári. Veiðarnar hefjast á miðnætti. Kom þetta fram í utandagskárumræðu sem efnt var til að frumkvæði Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um framtíð hvalveiða við Ísland.

Magnús kvaddi sér hljóðs og sagði að hann og formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, hefðu orðið vitni að því í morgun þegar Hvalur 9 var leystur frá festum í Reykjavíkurhöfn. „Þetta var söguleg stund," sagði Magnús. Hann sagði alla gera sér grein fyrir hvað væri að gerast en vildi fá staðfestingu á því frá ráðherra.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra steig þá í pontu og tilkynnti að atvinnuveiðar yrðu hafnar á ný á þessu fiskveiðiári. Sagði ráðherra enn fremur að Hafrannsóknastofnun hefði metið það svo að hægt væri að stunda sjálfbærar veiðar á hval með því að veiða um 200 langreyðar og 400 hrefnur á ári. Íslendingar hefðu allar heimildir til veiðanna og þjóðréttarleg staða væri í lagi.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa eigendur Hvals hf. búið sig undir veiðar að undanförnu meðal annars með því að senda hvalveiðibátinn Hval 9 í slipp og með því að undirbúa Hvalstöðina í Hvalfirði. Að sögn Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf., eru menn klárir í bátana og í morgun og nú eftir hádegið hafa starfsmenn Hvals veriða að prófa gufuvélarnar í Hval 9 með því að sigla í ytri höfninni. Vélarnar hafa ekki verið ræstar frá árinu 1989 þegar hvalveiðum var hætt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×