Innlent

Átta þúsund manns tóku á móti Magna

Átta þúsund manns tóku á móti söngvaranum Magna Ásgeirssyni í Smáralindinni í dag og ætlaði allt um koll að keyra þegar hann steig á svið. Kappinn vann hugi og hjörtu Íslendinga þegar hann sló í gegn í keppninni Rock Star: Supernova

NFS sendi út beint frá móttökuathöfninni fyrir Magna í Smáralindinni. Dagskráin hófst klukkan fjögur en Magni kom hins vegar ekki fyrr en klukkan var að nálgast fimm og margir því orðnir óþreyjufullir þegar Magni gekk í salinn. Þegar hann gekk á svið ætlaði allt um koll að keyra. Magni var að vonum ánægður með móttökurnar og þakkaði allan stuðninginn.

Eins og flestir vita varð Magni í fjórða sæti í raunveruleikaþættinum Rock Star: Supernova. Það var söngvarinn Lukas Rossi sem fór með sigur af hólmi en í hugum þeirra sem voru í Smáralindinni í dag var enginn vafi á því að Magni værir sigurvegari.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, færði Magna þakkir fyrir hönd þjóðarinnar. Hún afhenti honum bók um Kjarval að gjöf frá ríkisstjórninni en bæði Kjarval og Magni eru frá Borgarfirði Eystri.

Magni tók svo lagið með hljómsveit sinni Á móti sól en þeir höfðu ekki spilað saman síðan Magni fór út fyrir þremur mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×