Innlent

Ósætti um eftirlit á kjörstað

Ósætti er um hvernig framboð mega standa að eftirliti á kjörstað og frambjóðendur sem tóku að sér hlutverk kjörstjórnarfulltrúa voru meðal ágreiningsmála sem upp komu í sveitarstjórnarkosningunum í gær.

Í Árborg kærði kjósandi framkvæmd kosninganna. Hann taldi það stangast á við lög að eftirlitsmenn framboða fengju að fylgjast með kosningunum, skrá niður upplýsingar og fara með þær út af kjörstað.

Hann vísaði meðal annars í álit Perónuverndar frá því í maí 2002. Þar kom fram að framboðslistum væri heimilt að vera í kjördeildum og merkja við þá sem kjósa. Hins vegar væri óheimilt að fara með slíkar upplýsingar út úr kjördeild nema slíkt sé nauðsynlegt í þeim tilgangi að hafa eftirlit með því að kosning fari löglega fram.

Ekki hefur neitt reynt á málið í Reykjavík eftir álit Persónuverndar þar sem framboðin í Reykjavík hafa ekki sókst eftir því að skrifa niður nöfn kjósenda og fara með þær upplýsingar út úr kjördeildum.

Yfirkjörstjórn í Árborg taldi í gær að framboðslistarnir ættu fullan rétt á að skrifa niður upplýsingar um kjósendur og fara með þær út. Hún fór hins vegar fram á það við umboðsmenn framboðanna að listarnir yrðu ekki notaðir í þeim tilgangi til að smala á kjörstað og þurftu umboðsmennirnir að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis.

Í Reykjanesbæ kom upp ósætti eftir að yfirkjörstjórn þar ákvað að ekki mætti nota tölvur til að safna saman slíkum gögnum um kjósendur heldur aðeins skrifa þau niður.

Frambjóðendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins voru sjálfir við vinnu í kjördeild á Hofsósi. Ásdís Ármannsdóttir formaður kjörstjórnar sagði í samtali við NFS að hún hefði fengið fregnir af þessu um hádegi í gær og kallaði inn varamenn í kjörstjórn strax. En það er með öllu ólöglegt að frambjóðendur vinni sjálfir í kjördeildum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×