Innlent

Meirihlutinn féll í fimm af ellefu stærstu sveitarfélögum landsins

Meirihlutinn í bæjarstjórn féll í fimm af ellefu stærstu sveitarfélögum landsins í kosningunum í gær. Það var fyrirséð að nýr meirihluti tæki við í Reykjavík þar sem R-listinn bauð ekki fram. Íbúar Akureyrar, Mosfellsbæjar, Árborgar og Akraness felldu hins vegar þá meirihluta sem hafa verið við völd þar.

Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin í Mosfellsbæ og meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks féll á Akureyri. Samfylkingin og Framsókn hafa verið við völd á Akranesi og í Árborg en misstu meirihluta sinn á báðum stöðum. Framundan eru þreifingar um meirihlutasamstarf í þessum fimm sveitarfélögum því það enginn einn flokkur náði meirihluta í neinu þeirra.

Sjálfstæðismenn náðu hins vegar meirihluta í Vestmannaeyjum. Þar hafa þeir verið í meirihlutasamstarfi með Vestmannaeyjalista en geta nú stjórnað einir.

Meirihlutinn féll á Álftanesi en þar skildu aðeins þrjú atkvæði á milli Álftaneslistans og Sjálfstæðisflokksins. Þeir fyrrnefndu höfðu sigur og byltu þannig meirihluta Sjálfstæðismanna.

Tíðindin eru þó ekki síður mikil sums staðar þar sem meirihlutinn hélt velli. Á Ísafirði bentu allar kannanir til að Í-listinn fengi meirihluta og það jafnvel nokkuð öruggan. Þess í stað hélt meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×