Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn fær hreinan meirihluta

Sjálfstæðisflokkurinn er með rúmlega 47 prósenta fylgi og fær hreinan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir NFS. Björn Ingi Hrafnsson oddviti Framsóknarflokks nær ekki kjöri samkvæmt könnuninni.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði skoðanakönnun meðal borgarbúa á fylgi stjórnmálaflokkanna dagana tuttugasta og annan til tuttugasta og fjórða maí.

Hún leiðir í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig sjö prósentustigum frá síðustu kosningum og er með 47 kommma tveggja prósenta fylgi. Samfylkingin er næststærstir flokkurinn með 25,6 prósenta fylgi og Vinstri - grænir fá 13,7 prósent. Frjálslyndir og óháðir eru með 8,5 prósenta fylgi og bæta við sig tæplega tveimur og hálfu prósentustigi frá síðustu kosningum en Framsóknarflokkurinn hefur stuðning fimm prósenta borgarbúa samkvæmt könnuninni. Niðurstöðurnar sýna einnig að flokkarnir sem stóðu að R-listanum tapa rúmlega átta prósentum frá síðustu kosningum þegar listinn fékk 52,6 prósent.

Þessar niðurstöður þýða að Sjálfstæðisflokkurinn nær hreinum meirihluta eða átta mönnum í borgarstjórn. Samfylkingin fengi hins vegar fjóra fulltrúa, Vinstri - grænir tvo og Frjálslyndir einn en Framsóknarflokkurinn næði ekki inn manni.

Ef horft er til þess hvað fólk ætlar að kjósa nú miðað við hvað það kaus síðast kemur í ljós að tæpur helmingur þeirra sem kaus R-listann síðast ætlar að kjósa Samfylkinguna nú, um fimmtungur Vinstri - græn en tæp átta prósent Framsóknarflokkinn. Tæplega 17 prósent sem kusu R-listann síðast ætla hins vegar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú. Þá vekur athygli að helmingur þeirra sem ekki kusu í síðustu borgarstjórnarkosningum hyggst nú kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Við könnunina studdist Félagsvísindastofnun við 1200 manna úrtak og svarhlutfall var 64 prósent.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×