Innlent

Best að sitja sem fastast

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. MYND/Vilhelm

Kristinn H. Gunnarsson segist ekki á þeim buxunum að segja af sér þingmennsku þrátt fyrir harða gagnrýni Gunnars Braga Sveinssonar, sveitarstjórnarmanns og miðstjórnarmanns í Framsóknarflokknum, sem segir réttast að Kristinn láti af þingmennsku.

Gunnar Bragi Sveinsson, sem sæti á í miðstjórn Framsóknarflokksins og er sveitarstjórnarmaður í Skagafirði, fer hörðum orðum um Kristinn H. Gunnarsson, þingmann Framsóknar í Norðvesturkjördæmi. Gunnar segir Kristinn hvítþvo sig af erfiðum málum en koma fram með geislabaug þegar eitthvað vinsælt sé í gangi. "Þetta skaðar flokkinn, þetta skaðar kjördæmið og við höfum ekkert við slíka þingmenn að gera."

Kristinn segir Gunnar Braga löngum hafa gagnrýnt sig og því komi gagnrýnin ekki á óvart. En á hann samleið með Framsóknarflokknum? "Í þeim málum sem hefur skorist í odda hefur nú afstaða kjósenda og stuðningsmanna Framsóknarflokksins undantekningalaust verið sú sama og ég hef haft," segir Kristinn.

Þessu er Gunnar Bragi ekki sammála. Hann segir málflutning Kristins vera þann sama nú og þegar Kristinn var þingmaður Alþýðubandalagsins, þetta megi auðveldlega sjá með því að bera saman greinar sem Kristinn hefur skrifað í gegnum tíðina og megi nálgast á vef Kristins. "Ég mótmæli því sem hann heldur fram að allir Framsóknarmenn séu sammála hans stefnu og skoðun, það er langt, langt frá því," segir Gunnar Bragi.

Það er þó ólíklegt að Gunnari Braga verði að ósk sinni um að Kristinn láti af þingmennsku. "Ég held að besta svarið við svona kveðjum sé að sitja sem fastast," segir Kristinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×