Íslenski sýningarskálinn á Feneyjatvíæringnum um byggingarlist og borgarskipulag hlaut í gær sérstaka viðurkenningu dómnefndar fyrir framúrskarandi framsetningu og samspil listamanns og arkistektastofu, en þar kynna Íslendingar tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Austurhöfn í Reykjavík ásamt tilheyrandi skipulagi og uppbyggingu í miðborginni.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum um byggingarlist og borgarskipulag en skáli landsins var opnaður í byrjun september. Fram kemur í tilkynningu frá eignarhaldsfélaginu Portus Group, sem stendur að uppbyggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins ásamt ríki og borg að 145 sýningarskálar hafi verið á hátíðinni í ár.
Sérstök verðlaunaafhending fór fram í Teatro Malibran leikhúsinu í Feneyjum í gær vegna hátíðarinnar og þar var var Gullna Ljónið 2006, verðlaun Feneyjatvíæringsins um framúrskarandi kynningu á byggingarlist og borgaskipulagi, afhent. Verðlaunum til sýningarskála var skipt í þrjá flokka: Sýningarskála borga, sýningarskála þjóða og sýningarskála ákveðinna þróunarverkefna í borgarskipulagi.
Að þessu sinni hlaut Bogotá í Kolumbíu Gullna Ljónið fyrir sýningarskála borga, Danski sýningarskálinn Gullna Ljónið fyrir sýningarskála þjóða og Javier Sanchez/Higuera+Sanches fyrir þróunarverkefnið "Brazil 44" í Mexíkóborg fyrir sýningarskála ákveðinna þróunarverkefna.
Að auki hlutu þrír sýningarskálar sérstakar viðurkenningar, þar á meðal íslenski sýningarskálinn. Íslenski sýningarskálinn hlaut viðurkenningu fyrir "framúrskarandi framsetningu og samspil listamanns og arkitektastofu, Ólafs Elíassonar og Teiknistofu Hennings Larsen". Japanski sýningarskálinn og sýningarskáli Makedóníu fengu einnig viðurkenningu.