Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group, var í dag veitt viðurkenningin maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2006. Það er Frjáls verslun sem velur mann ársins en Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti Róbert verðlaunin í dag.
Dómnefnd Frjálsrar verslunar telur Róbert hafa verið athafnasaman og framsýnan og náð einstökum árangri við stækkun fyrirtækisins, djarflega framgöngu við yfirtökur á erlendum fyrirtækjum og framúrskarandi ávöxtun til hluthafa á undanförnum árum.
Þegar Róbert var ráðinn forstjóri lyfjafyrirtækisins Delta í Hafnarfirði árið 1999 störfuðu 100 manns hjá fyrirtækinu en núna eru ellefu þúsund starfsmenn Actavis að störfum í 32 löndum.