Erlent

Á leið til sólarinnar

Leiðangur STEREO-faranna á að taka tvö ár.
Leiðangur STEREO-faranna á að taka tvö ár. MYND/AP

Tveimur geimförum var í morgun skotið upp frá Canaveral-höfða í Flórída í átt til sólarinnar. Geimförin eiga að taka þrívíddarmyndir af sólstrókum en þeir valda norðurljósunum fögru.

Það var tilkomumikil sjón að sjá Delta-eldflaugina á skotpallinum á Canaveral-höfða í dögun en oftan á henni hafði verið komið fyrir tveimur geimhylkjum sem eiga langa og stranga leið fyrir höndum. Búist er við að eftir um það bil tvö ár verði geimförin, sem kallast STEREO, komin nægilega nálægt sólinni til að taka þrívíddarmyndir af einhverjum hrikalegustu hamförum sólkerfisins, sólstrókunum svokölluðu. Leifar þessara stróka komast inn í segulsvið jarðar við pólana og þær köllum við norður- og suðurljós. Strókarnir eru þó einnig jarðarbúum til tjóns því geislunin af þeirra völdum getur skemmt gervihnetti og truflað fjarskipti. Vonast er til að upplýsingar úr þessum 37 milljarða króna leiðangri verði gagnlegar þegar kemur að því að verja geimfara á leið til mars fyrir geislun. Í það minnsta má gera ráð fyrir því að myndirnar sem berast frá STEREO-förunum verði ægifagrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×