Innlent

Alliance hús verði ekki rifið

alliance húsið Húsafriðunarnefnd vill að horfið verði frá áætlunum um að rífa húsið.
fréttablaðið/heiða
alliance húsið Húsafriðunarnefnd vill að horfið verði frá áætlunum um að rífa húsið. fréttablaðið/heiða

Svokallað Alliance hús sem stendur á Ellingsen reitnum við Mýrargötu, á að rífa ásamt öðrum húsum sem þar standa samkvæmt deiliskipulagi. Þar á að rísa sjö hæða íbúðablokk en Húsafriðunarnefnd leggst gegn niðurrifi hússins.

Þorsteinn Gunnarsson arkitekt er formaður nefndarinnar og segir hann mikil menningarsöguleg verðmæti fara forgörðum ef húsið verður rifið. "Þetta hús hefur mikið varðveislugildi, bæði byggingarlist þess og tenging þess við atvinnusögu Reykjavíkur," segir Þorsteinn. "Við viljum eindregið koma þeim skoðunum á framfæri svo að horfið verði frá niðurrifi þess."

Fyrirhugaður er fundur með borgarstjóra á miðvikudaginn vegna málsins og kveðst Þorsteinn hæfilega bjartsýnn. "Ég vona að borgarstjóri hlusti á okkar sjónarmið og taki mark á þeim," segir Þorsteinn.

Ekki náðist í borgarstjóra vegna málsins og Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu, hún vildi kynna sér það betur.

Húsið var byggt árin 1924 til 1925 og dregur nafn sitt af útgerðarfyrirtæki Thors Jensen, Alliance, sem þar var til húsa. Húsið er að sögn borgarminjavarðar á meðal síðustu minja um saltfiskvinnslu í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×