Innlent

Gengu út eftir ræðu Dagnýjar

Dagný Jónsdóttir
Dagný Jónsdóttir

Fulltrúar Bandaríkjanna á ársfundi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu gengu á dyr eftir ræðu Dagnýjar Jónsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Í ræðunni vakti Dagný athygli á með hvaða hætti Bandaríkjamenn greindu íslenskum stjórnvöldum frá brotthvarfi varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli og staldraði sérstaklega við skamman fyrirvara tilkynningarinnar. Sagði hún að á Íslandi teldust slík vinnubrögð ekki til góðra mannasiða, ekki síst þar sem Íslendingar hefðu verið banda- og stuðningsmenn Bandaríkjamanna í gegnum árin.

Dagný tók málið fyrst upp í umræðum nefndar um efnhags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. "Ég tók það upp í umræðum um öryggi orkuflutninga og benti á þá stöðu sem uppi væri í öryggismálum á Norður-Atlantshafi þegar Bandaríkjamenn færu héðan," segir Dagný.

Bandaríkjamenn létu engin viðbrögð uppi eftir umræðurnar í nefndinni og vakti það athygli Dagnýjar þar sem þeir sögðu álit sitt á öllum öðrum umræðuefnum. Hún afréð því að taka málið upp að nýju á lokafundinum, en hann sátu fulltrúar allra 56 aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunarinnar. Viðbrögð frá Rússum, Kanadamönnum, Bretum og Norðurlandaþjóðunum létu ekki á sér standa, en enn heyrðist hvorki hósti né stuna frá Bandaríkjamönnum. "Hins vegar veit ég ekki hvort það var tilviljun, en þeir gengu úr salnum þegar ræðan mín var búin," segir Dagný og bætir við að málið sé neyðarlegt fyrir Bandaríkjamenn.

Að sögn Dagnýjar deila nágrannaþjóðir okkar áhyggjum hennar og annarra af öryggi sjófarenda á Norður-Atlantshafi, enda eiga sjóflutningar eftir að aukast með tíð og tíma, ekki síst með frekari olíu- og gasvinnslu á norðurheimskautssvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×