Sport

Arsenal hafði ekki nógu mikinn áhuga

Patrick Vieira á góðri stundu með Arsenal.
Patrick Vieira á góðri stundu með Arsenal.

Patrick Vieira miðjumaður Juventus á Ítalíu segir í nýútkominni ævisögu sinni að áhugaleysi Arsenal á að hafa sig áfram, hafi verið þess valdandi að hann yfirgaf félagið í sumar. Arsenal seldi Vieira til Juventus fyrir 13.7 milljónir punda í sumar eftir 9 ára dvöl Frakkans hjá félaginu. Afgerandi sést á leik liðsins að hans er sárt saknað.

Vieira segir að það hafi verið orð varastjórnarformanns Arsenal, David Dean, sem hröktu hann til Ítalíu. "Við erum hlutlausir. Við viljum leyfa þér að ákveða hvað þú vilt gera." sagði Dean. Þessi orð komu leikmanninum í opna skjöldu.

"Ég spurði Dean hvað hann ætti við með ég ætti að ákveða það. Hann endurtók tilboðið og sagði að það væri rausnarlegt. Fyrir mér snérist málið ekki um rausnarleikann, orðið sem bergmálaði í höfði mínu var "hlutlausir" Ég var reiður, undrandi og í uppnámi. Ég hafði verið hjá félaginu í 9 ár og ef þeir hefðu virkilega viljað halda leikmanni sem þeir höfðu berist fyrir með tönnum og neglum þá myndu þeir ekki láta mig um ákvörðunina. Ef það er þannig sem þú vilt hafa það, þá er ég farinn vegna þess að ég fæ að velja." segir Vieira í ævisögunni.

Franski landsliðsmaðurinn hefur átt fína byrjun með Juventus sem er efst í ítölsku úrvalsdeildinni. Hann hefur skorað þrjú mörk í 8 leikjum sem telst gott af miðjumanni að vera. Arsenal hefur hins vegar ekki átt jafn góðu gengi að fagna í ensku úrvalsdeildinni frá brotthvarfi Vieira. Liðið hefur ekki enn unnið útileik á tímabilinu, gert í þeim tvö jafntefli og tapað þremur. Arsenal hefur hins vegar unnið alla heimaleiki sína í deildinni en Englandsmeistararnir fyrrverandi eru í 5. sæti deildarinnar eftir 11 umferðir, 11 stigum á eftir toppliði Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×