Innlent

Allt að sex milljónir falla á ríkið

Slökkvilið varnarliðsins.
Slökkvilið varnarliðsins. MYND/Pjetur

Ríkið þarf að greiða á bilinu fjórar til sex milljónir króna vegna dóms Hæstaréttar um að Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hafi verið óheimilt að hætta að greiða slökkviliðsmönnum rútugjald.

Hver og einn slökkviliðsmaður fær 200-300 þúsund krónur í kjölfar dómsins, auk dráttarvaxta samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Alls njóta 25 til 30 slökkviliðsmenn góðs af dómnum.

Ríkið verður að greiða kostnaðinn vegna samnings íslenskra og bandarískra stjórnvalda um að mál sem höfðuð eru vegna deilna um kjaramál hjá Varnarliðinu skuli rekin gegn íslenskum stjórnvöldum.

Varnarliðið sagði upp rútugjaldinu 28. október 2003 til að skera niður útgjöld en rútugjaldið nemur 1.600 krónum á hverja vakt. Slökkviliðsmenn sættu sig ekki við þetta. Þeir töldu brotið gegn kjarasamningum og höfðuðu mál sem þeir unnu hvort tveggja fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×