Innlent

2 ára fangelsi fyrir líkamsárás

Rúmlega fertugur maður, Trausti Finnbogason, var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í tveggja ára fangelsi fyrir grófa líkamsárás sem hann framdi í félagi við 17 ára ungling. Mennirnir tveir hittu fórnarlambið við verslunina Select við Bústaðarveg og buðu honum með sér í partí. Hann þáði boðið og ók með þeim á áfangastað. Þegar þangað var komið réðust árásarmennirnir að honum með kylfum og öðrum bareflum og slógu hann ítrekað í höfuðið. Árásarmennirnir reyndu að ná peningum af fórnarlambinu sem hann hafði í veski sínu en flúðu þegar nágranni kom frammi á stigapallinn og skildu manninn eftir liggjandi í blóði sínu. Héraðsdómur taldi brot mannsins bæði fruntalegt og hættulegt, auk þess sem hann dró með sér óharðnaðan ungling til verksins. Unglingurinn fékk fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.Fleiri fréttir

Sjá meira


×