Innlent

Mannsins enn saknað

Skemmtibáturinn sem fórst á Viðeyjarsundi í nótt var dreginn á land upp úr hádegi í dag. Lík af rúmlega fimmtugri konu sem var í bátnum fannst í morgun en rúmlega þrítugs karlmanns er enn saknað og hefst þriðja lota leitarinnar um hálf fjögur að sögn Jónas Guðmundssonar hjá Landsbjörgu. Þriggja var bjargað af kili bátsins í nótt sem maraði þá í hálfu kafi. 

Ekki liggur fyrir hvað olli slysinu en báturinn virðist hafa strandað á Skarfaskeri og sokkið í kjölfarið. Þyrla Landhelgisgæslunnar hóf leit um klukkan hálf þrjú í nótt og stóð leitin yfir til klukkan sex. Þyrlan hóf svo aftur leit upp úr hálf tíu í morgun og er enn við leit. Slysavarnarfélagið Landsbjörg, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, og lögreglan hafa einnig tekið þátt í leitinni með bátum, fjölda kafara og leitarmönnum í landi. Hátt í tuttugu kafarar voru við leit þegar mest var. Frá slysavarnarfélaginu Landsbjörgu eru hundrað björgunarsveitarmenn við leit á skipum og bátum, auk þess sem gengnar eru fjörur frá Geldinganesi að Gróttu og í öllum eyjum á sundinu. 

Báturinn sem sökk hét Harpan, smíðaður í Noregi en sigldi undir breskum fána.

MYND/Teitur
MYND/Heiða



Fleiri fréttir

Sjá meira


×