Erlent

Hefja gæðaeftirlit í skólum

Gæðaeftirlit í skólum verður tekið upp í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi á næstunni. Fylgjast á með kennslu og ræða við nemendur, foreldra og starfsfólk um skólastarfið auk þess sem farið verður yfir árangur í prófum og áætlanir skóla. TÜV kallast gæðaeftirlit með bílum, húsgögnum og ýmiss konar öðrum neytendavarningi í Þýskalandi en nú hefur menntamálaráðherra Neðra-Saxlands ákveðið að tímabært sé að taka sams konar eftirlit upp í skólum. Framvegis birtist hersveit eftirlitsmanna í skólum á fjögurra ára fresti eða svo og fer rækilega ofan í saumana á skólastarfinu. Þeir eiga að fylgjast með kennslu og sitja í tímum hjá í það minnsta helmingi kennara. Að því loknu ræða þeir við nemendur og foreldra til að kanna betur andrúmsloftið í skólanum og til að meta skoðanir þeirra. Og loks fær starfsfólkið að lýsa skoðunum sínum. Þessu til viðbótar skoða eftirlitsmennirnir niðurstöður samræmdra prófa, kanna kennsluáætlanir skólanna, hlutfall þeirra sem falla og komast ekki upp á milli ára og loks sérstöðu viðkomandi skóla. Að því loknu leggja þeir fyrir skýrslu sem á að vera skólayfirvöldum til leiðbeiningar. Menntamálaráðherra Neðra-Saxlands telur að þetta gefi skólastjórnendum tækifæri til að fá hlutlaust mat utanaðkomandi og þá geti stjórnendur gert sér betri grein fyrir kostum og göllum viðkomandi skóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×