Erlent

Árásarfeðgarnir nafn­greindir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk virðir fyrir sér persónulega muni sem urðu eftir á ströndinni þegar skotárásin hófst og fólk flúði.
Fólk virðir fyrir sér persónulega muni sem urðu eftir á ströndinni þegar skotárásin hófst og fólk flúði. Getty/Izhar Khan

Feðgarnir sem stóðu fyrir skotárásinni á Bondi strönd í Nýju Suður Wales í Ástralíu í gær voru Naveed Akram, 24, ára og Sajid Akram, 50 ára. Sajid var skotinn til bana af lögreglu en Naveed var handtekinn og fluttur á sjúkrahús, alvarlega særður.

Að minnsta kosti sextán létust í árásinni og 42 voru fluttir á sjúkrahús. Látnu voru á aldrinum tíu til 87 ára.

Naveed var lögreglu og öryggisyfirvöldum kunnugur. Hann komst á radar yfirvalda í október árið 2019 og var til rannsóknar í sex mánuði vegna tengsla hans við aðra einstaklinga og hóp tengdan Ríki íslam. Faðir hans var skráður fyrir sex skotvopnum; fjögur fundust á vettvangi skotárásarinnar en tvö á heimili í Campsie.

Forsætisráðherrann Anthony Albanese segir niðurstöðu rannsóknarinnar hins vegar hafa verið þá að engin yfirvofandi hætta stafaði af Naveed.

Að sögn lögreglu bjuggu feðgarnir í Bonnyrigg í vesturhluta borgarinnar, þar sem ráðist var í húsleit í gær. Ekkert fannst á vettvangi sem gaf til kynna að mennirnir hefðu verið að skipuleggja hryðjuverkaárás.

Lögregluyfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um fregnir þess efnis að stefnuyfirlýsing eða fáni Ríkis íslam hafi fundist í bifreið feðganna.

Vinnuveitandi Naveed hefur lýst honum sem samviskusömum starfskrafti. Hann hafi hins vegar tilkynnt fyrir um það bil tveimur mánuðum að hann hefði úlnliðsbrotnað í boxi og að hann yrði ekki vinnufær fyrr en 2026. Þá hafði hann óskað eftir því að fá allt greitt sem hann átti inni, leyfi og annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×