Erlent

Segir Reiner hafa verið myrtan vegna and­úðar í sinn garð

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Jose Luis Magana

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að andúð leikstjórans Robs Reiner á sér hafi leitt til þess að hann hafi verið myrtur. Ekkert liggur fyrir um tilefni þess að Reiner og Michele eiginkona hans voru myrt en fregnir hafa borist af því að sonur þeirra hafi verið handtekin og sé grunaður um að hafa framið morðin.

Í færslu á Truth Social segir Trump að Rob Reiner hafi verið þjakaður og barist í bökkum en á árum áður hafi hann verið hæfileikaríkur leikstjóri og grínisti.

Þá segist Trump hafa heimildir fyrir því að þau hafi verið myrt vegna þess hve auðvelt Reiner hafi átt með að gera annað fólk reitt vegna andstöðu leikstjórans við Trump.

Eins og áður segir hefur ekkert verið gefið upp um tilefni morðsins en sonur Reiners og Michele mun hafa verið yfirheyrður vegna þess og segja fjölmiðlar hann grunaðan um að hafa myrt foreldra sína.

TMZ segir Nick Reiner, son Rob, hafa verið handtekinn í dag.

Sjá einnig: Spjótin beinast að syni Reiners

Forsetinn segir að Reiner hafi þjáðst af ólæknandi veikindum sem kallist „TRUMP-STURLUNARHEILKENNIГ, eða TDS. Það er hugtak sem Trump og stuðningsmenn hans nota iðulega um fólk sem er illa við forsetann.

„Hann var þekktur fyrir að gera fólk BRJÁLAÐ vegna æðisgenginnar þráhyggju hans í garð Donald J. Trump, forseta, og náði þessi augljósa vænisýki nýjum hæðum samhliða því að ríkisstjórn Trumps náði öllum sínum markmiðum og stóðst allar væntingar um mikilfengleika…“

Að lokum óskar Trump þess að hjónin hvíli í friði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×