Innlent

Yfir 50% námsmanna í vinnu

Meira en helmingur íslenskra námsmanna yfir sextán ára aldri stundar vinnu með námi. Deildarforseti við Háskóla Íslands segir það færast í vöxt að nemendur ljúki ekki lokaverkefnum við skólann þar sem þeir hverfi til vinnu áður en náminu ljúki. Á fyrsta ársfjórðungi ársins unnu rétt tæp 60% allra námsmanna yfir sextán ára aldri með vinnu, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Meðalvinnuvikan hjá þeim sem vinna er tæplega tuttugu og sjö stundir. Rétt er þó að taka fram að inni í þeim tölum eru námsmenn sem eru á námssamningi eða í starfsþjálfun. Líklegt er að meðalvinnuvikan sé nokkuð styttri, sé einungis miðað við þá sem eru í bóknámi. Framhaldsskólanemendur sem fréttastofan ræddi við voru þó á einu máli um að vinnan kæmi ekki niður á náminu. En það er ekki bara á framhaldsskólastigi sem nemendur vinna með námi því það gera einnig margir háskólanemar landsins. Gildir þá einu þó þeir séu í fullu námi, og jafnvel á meistarastigi. Oddný Sverrisdóttir, forseti Hugvísindadeildar Háskóla Íslands, segir það jafnvel ganga svo langt að spurning sé hvort nemendur sé í vinnu með námi eða námi með vinnu. Og Oddný segir það orðið nokkuð algengt að nemendur ljúki ekki námi og þar spili mikil vinna sína rullu. Hún segir það mjög sorglegt þegar nemendur taki vinnuna það mikið fram yfir að þeir ljúki aldrei náminu. Hún segist vonast til þess að með tilkomu Háskólasjóðs Eimskipa dragi úr þessari þróun, sérstaklega í meistaranámi, enda muni nemendur í rannsóknartengdu námi þá fá styrki fyrir nám sitt.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×