Innlent

Skólagjöld ekki handan við hornið

Menntamálaráðherra telur ótímabært að segja til um hvort skólagjöld verði tekin upp við Háskóla Íslands í kjölfar stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar um háskólann. Heildstæð löggjöf um háskólastigið verður lögð fram á þingi næsta vetur. Í úttekt Ríkisendurskoðunar um Háskóla Íslands er þeim spurningum varpað fram hvort skólinn geti aflað meiri ríkisframlaga eða hvort hann eigi að auka tekjur sínar með skólagjöldum. Einnig hvort hann eigi að grípa til ráðstafana til að takmarka fjölda nýrra nemenda. Ríkisendurskoðun telur að hvorki skólinn né stjórnvöld geti vikist undan að taka af skarið um svo þýðingarmikil mál í starfsemi skólans. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra fagnar skýrslu Ríkisendurskoðunar og segir hana vel unna. Hún sýni að vel hafi verið staðið að uppbyggingu háskólastigsins og fara þurfi gaumgæfilega yfir málið. Aðspurð hvort hún telji nú, þegar stjórnsýsluúttektin liggur fyrir, að skólagjöld verði tekin upp í Háskóla Íslands segir Þorgerður Katrín þaðð ótímabært á þessu stigi. Þó finnst henni að skoða eigi þann möguleika gaumgæfilega. Menntamálaráðherra segir að uppbygging háskólastigsins hafi leitt til þess að huga verði betur að því hvernig enn frekar sé hægt að auka framlög til þess. Hún hyggst leggja fram heildstæða löggjöf um háskólastigið á næsta þingi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×