Innlent

HÍ ódýr í rekstri

Háskóli Íslands er tiltölulega ódýr í rekstri miðað við sambærilega evrópska háskóla. Árangur hans á mörgum sviðum kennslu og rannsókna er sömuleiðis ágætur. Ljóst er hins vegar að möguleikar hans til að þróast sem öflugur alþjóðlegur rannsóknarháskóli ráðast að verulegu leyti af því hvaða stefna í uppbyggingu og stjórnun verður valin á komandi árum. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands. Þar segir að ljóst sé að staða Háskóla Íslands hafi breyst verulega á síðustu árum og hann sé nú farinn að keppa við aðra innlenda háskóla um fjármagn, nemendur og kennara. Ríkisendurskoðun segir að ört stækkandi nemendahópur valdi vissum áhyggjum, enda þrengi hann verulega að fjárhagsstöðu skólans, um leið og metnaðarfullar hugmyndir um framhaldsnám og rannsóknir kalli á aukið fé og fleira starfsfólk. Telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að huga að því hvernig skólinn eigi að bregðast við þessum nýju aðstæðum. Í fyrsta lagi geti skólinn reynt að laga starfsemi sína að núverandi fjárhagsstöðu, t.d. með því að takmarka fjölda nemenda við það fé sem hann fær greitt fyrir, og fara sér hægar við að byggja upp framhaldsnám og rannsóknarstarfsemi. Annar möguleiki sé að reyna enn frekar að hemja kostnað og hagræða í rekstri. Þá telur Ríkisendurskoðun að skoða þurfi hvort unnt sé að auka tekjur Háskólans, annað hvort með meiri fjárveitingum úr ríkissjóði eða með skólagjöldum og auknum styrkjum. Auk þess er talið mikilvægt að farið verði yfir verkaskiptingu miðlægrar stjórnsýslu skólans, fjármálastýring hans verði styrkt og honum veitt meiri ábyrgð á launamálum starfsmanna en hingað til.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×