Lífið

Erfitt að lýsa tilfinningunni

Hildur Vala Einarsdóttir, Idol-stjarna ársins 2005, segist ekki hafa verið sigurviss fyrir lokakvöldið. Hún á erfitt með að lýsa tilfinningunni þegar tilkynnt var að hún væri orðin Idol-stjarna Íslands því hún hafi verið mjög skrítin. 

„Maður veit ekki alveg hvernig maður á að haga sér,“ segir Hildur. Og hún segir sl. nótt hafa verið svefnlitla.  Hildur sigraði Aðalheiði Ólafsdóttur í úrslitakeppni Idol stjörnuleitar í beinni útsendingu á Stöð 2 í gærkvöld. 

Eitt hundrað þrjátíu og fimm þúsund atkvæði voru greidd, og var að sögn þáttastjórnendanna mjótt á mununum. Dómarar voru afar sáttir við frammistöðu beggja keppenda og sögðust telja stúlkurnar báðar eiga framtíðina fyrir sér í poppheiminum.   

Hildur Vala segir að þrátt fyrir að þátttakendur hafi allir verið að keppa að sama markinu hafi myndast mikil vinátta á milli þeirra. Það er ljóst að Idol-stjörnunnar bíður mikil vinna, en fyrst ætlar hún að hvíla sig. „Ég ætla að einbeita mér að því að hugsa um næstu daga og vikur,“ segir Hildur Vala, rám í röddinni eftir gærkvöldið og mikinn söng undanfarnar vikur. 

Hildur Vala segist sjálf vera ósköp venjuleg stelpa úr Vogunum í Reykjavík en greinilegt er að þjóðin er ekki á sama máli. Fyrir Idol - Stjörnuleit hafði hún unnið sér það helst til frægðar að sigra í karókíkeppni grunnskólanna með laginu Sound of Silence sem hún söng ásamt vinkonu sinni. Hún tekur æðinu í kringum keppnina með stóískri ró og segir daginn í dag í raun hafa verið skringilega venjulegan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×