Innlent

Framtíð Varnarliðsins rædd

Embættismannaviðræður um framtíð Varnarliðsins hefjast á næstunni og gerir Davíð Oddsson utanríkisráðherra ráð fyrir að niðurstaða fáist á árinu. Hann og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddust við í fyrradag um framhald viðræðna. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, fundaði síðastliðið sumar í Hvíta húsinu með Georg Bush Bandaríkjaforseta um varnarsamstarf þjóðanna og fyrr í vetur fundaði hann með Colin Powell utanríkisráðherra um málið. Nú hefur Condoleeza Rice tekið við af Powell en þau Davíð ræddust við í síma í fyrradag um hvernig framhaldi viðræðna yrði háttað. Davíð vonast til að það skýrist innan tveggja vikna. Hann kvaðst ekki heyra betur á Rice en að hún væri mjög opin fyrir því að viðræðurnar kæmust á hið fyrsta. Viðræðurnar verða í höndum embættismanna þjóðanna en niðurstaðan mun hafa áhrif á atvinnumál á Suðurnesjum og fjárhag íslenska ríkisins þar sem rætt verður um varnarviðbúnað á Keflavíkurflugvelli og aukna þátttöku Íslands í þeim kostnaði. Davíð finnst þær viðræður sem hann hafi átt við Bush og Powell hafi verið skref í rétta átt, þótt ekkert sé í hendi. Hann vonar að óvissunni fari að ljúka því „eins og við höfum sagt við Bandaríkjamenn fara öryggi og óvissa ekki vel saman,“ segir Davíð.  


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×