Innlent

Sýslumaður fær á baukinn

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði fær alvarlega á baukinn vegna slælegra vinnubragða í dómi Ólafar Pétursdóttur héraðsdómara yfir tveimur smákrimmum í morgun. Strákarnir, sem báðir voru 17 ára þegar brotin voru framin í nóvember árið 2003, brutust inn í félagsmiðstöð í Hafnarfirði og stálu þaðan skjávarpa, auk þess sem annar þeirra ók drukkinn. Þeir höfðu ekki áður gerst brotlegir við lög. Samkvæmt málsgögnum lauk lögreglurannsókn mánuði síðar en sýslumaður ákærði ekki í málinu fyrr en fjórtán mánuðum eftir að brotin voru framin. Dómarinn segir að dráttur þessi sé óhæfilegur og hafi ekki verið skýrður. Hann brjóti í bága við lög um meðferð opinberra mála og sé í andstöðu við ákvæði stjórnarskrárinnar um verndun mannréttinda og mannfrelsis, samanber lög um mannréttindasáttmála Evrópu. Að öllu þessu virtu telur dómurinn að fresta skuli ákvörðun um refsingar ákærðu skilorðsbundið í tvö ár. Annar er sviptur ökuréttindum í tvo mánuði og báðir fá smá sektir. Það er svo líklega annarra um það að fjalla hvort sýslumaður sleppur með skrekkinn fyrir að hafa með vinnubrögðum sínum brotið í bága við lög.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×