Innlent

Formennirnir viðurkenni mistök

Steingrímur Hermannson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segist halda að Davíð Oddsson hafi einn tekið ákvörðun um að styðja innrásina í Írak. Halldór Ásgrímsson hafi staðið frammi fyrir gerðum hlut. Hann hvetur stjórnarherrana til að tala opinskátt um málið, birta fundargerðir utanríkismálanefndar og viðurkenna að mistök hafi verið gerð. Steingrímur sagði í Silfri Egils í dag það meiriháttar og alvarlega ákvörðun að hverfa frá þeirri áratuga stefnu Íslendinga að taka ekki þátt í árásarstríði og ófært að sú ákvörðun hafi verið tekin af einum eða tveimur mönnum. Hann segir að Davíð Oddsson hafi talað opinskátt um stuðning við Bandaríkjamenn en Halldór Ásgrímsson hafi alltaf verið með varnagla. Steingrímur segist ekki gera athugasemdir við það að ákvörðun um stuðning við Írak hafi ekki verið samþykkt í ríkisstjórn en það hafi verið ótrúlegt að bera málið ekki undir þingflokkana; þaðan fái ráðherrann sitt umboð. Þar sé veikleikinn að hans mati. „Og það er náttúrlega ekki hægt að halda því fram að málið sé svo veigalítið að það þurfi ekki samráð við utanríksimálanefnd,“ segir Steingrímur. Forsætisráðherrann fyrrverandi segir sjálfsagt að birta fundargerðir utanríkismálanefndar um málið. Það sé langsamlega hollast að tala opinskátt um málið eins og staðan sé og viðurkenna að mistök hafi verið gerð. Steingrímur gagnrýnir Davíð og Halldór fyrir að ræða ekki opinskátt um málið en segir um leið að að sumu leyti hafi fjölmiðlar farið offari í málinu, t.d. með því að vera sífellt að nuða um ríksistjórnarfundinn. Hann er algjört aukaatriði að mati Steingríms því það hafi ekki þurft samþykki ríkisstjórnarinnar. Ráðherrann fyrrverandi segir hins vegar boðið upp á þetta með því að tala ekki við fjölmiðla þegar þeir óski eftir því. „Það er miklu betra að tala við óánægðan blaðamann heldur en að láta hann fara óánægðan og skrifa einhverja vitlausa frétt,“ segir Steingrímur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×