Innlent

Hættustigi aflýst á Bíldudal

Að höfðu samráði við snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands hefur verið ákveðið að aflýsa hættustigi vegna snjóflóðahættu á Bíldudal og er íbúum, sem þurftu að rýma heimili sín í gærkvöldi, heimilt að fara heim á ný.Í gærkvöldi lýsti Veðurstofan yfir hættustigi á Bíldudal vegna snjóflóðahættu úr Gilsbakkagili og Búðargili. Ákveðið var að rýma fjögur hús með samtals níu íbúum næst farvegi Gilsbakkagils og var rýmingu lokið um klukkan 22. Að athuguðu máli var ekki talin ástæða til rýmingar húsa í námunda við farveg Búðargils. Viðbúnaðarstig vegna snjóflóðahættu verður þó enn um sinn og snjóeftirliti verður haldið áfram og fylgst grannt með snjóalögum. Hús á Bíldudal hafa ekki áður verið rýmd í vetur og við lá að rýma þyrfti nokkur hús á Patreksfirði þar sem snjór í gili þar var orðinn krabamettaður og mikill þungi var að hlaðast upp. Starfsmenn bæjarins náðu hins vegar að létta á uppsöfnun í gilinu. Viðbúnaðarstigi var aflétt á norðanverðurm Vestfjörðum í gær en þar ringdi mikið í hlýjum vindi í gærkvöldi og var gríðarleg bráðnun. Bæjarstarfsmenn á Ísafirði unnu fram á nótt við að dæla upp úr stífluðum niðurföllum og víða höfðu vatnsrásir við þjóðveginn um Ísafjarðardjúp stíflast þannig að vatn rann yfir veginn. Ekki er þó vitað um vegaskemmdir. Snjóflóð féll á veginn á milli Reykhóla og Flókalundar, skammt fyrir ofan bæinn Auðshaug, og stefndi þar á fjárhús en nam staðar áður en þangað var komið. Vegurinn er enn lokaður vegna þess. Annars er ekki vitað um snjóflóð í grennd vi byggð vestra en viðbúið er að þau hafi fallið hér og þar án þess að valda tjóni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×