Innlent

Halldór neitar ásökunum

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra þvertekur fyrir að málflutningur hans um þá ákvörðun að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu hafi verið villandi. Hann segir utanríkismálanefnd Alþingis frjálst að birta það sem hún vill varðandi málið.  Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði forsætiráðherra að því í dag hvort hann myndi vilja aflétta trúnaði þeim sem ríkir um störf utanríkismálanefndar. Þannig gæti hann eytt þeirri óvissu sem skapast hefur í umræðunni um ákvarðanatökuna. Halldór sagði það í lagi sín vegna en að nefndin væri þó búin að því. Hann sagði að það væri kannski rétt að rannsaka með hvaða hætti það hafi verið gert og af hvaða hvötum og vísar í fréttir sem birst hafa upp úr fundargerðum utanríkismálanefndar. Í Kastljósþætti í desember var Halldór spurður beint út um ákvarðanatökuna. Þar sagði hann að að lokum væru það hann og Davíð Oddsson utanríkisráðherra sem bæru aðalábyrgðina varðandi ákvarðanatökuna. Þeir hefðu „að sjálfsögðu tekið af skarið“ eftir að hafa rætt við ýma aðila um málið, þar með rætt það í utanríkismálanefnd og margoft rætt það á Alþingi. Halldór þvertekur fyrir að málflutningur hans um þá ákvörðun að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu hafi verið villandi. Halldór segir að samráðsskylda sé við utanríkismálanefnd en það sé ráðherra að taka ákvörðun. Það sé skýrt samkvæmt áliti Eiríks Tómassonar lagaprófessors þannig að hann og Davíð hafi að öllu farið að stjórnarskrá í málinu. Halldór segir auðvitað hægt að slíta alla hluti úr samhengi eins og gert hafi verið undanfarna daga í þessu máli.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×