Innlent

Ofsaveður á Hellisheiði

Ofsaveður gekk yfir Hellisheiði og Hveragerði í dag. Loka þurfti heiðinni fyrir umferð vegna veðurs og björgunarsveitarmenn hjálpuðu gangandi vegfarendum og skólabörn í Hveragerði.  Hellisheiði var lokað fyrir umferð um eittleytið í dag vegna veðurs. Ökumenn á leið austur leituðu skjóls í Litlu kaffistofunni auk annarra sem áttu leið um vegna starfa sinna. Einn þeirra, Ólafur Íshólm Jónsson, sagði að glórulaus stórhríð væri á heiðinni. Hann sagðist þó ekki hafa séð bíla sem væru fastir. Og hinum megin heiðarinnar, við Hveragerði, var lögregluvörður sem varnaði fólki að fara lengra enda blindbylur og skafrenningur. Guðmundur Axelsson lögregluþjónn sagði mikið af yfirgefnum bílum uppi á heiði og að björgunarsveitir frá Selfossi, Hveragerði og Þorlákshöfn hafi unnið við það að bjarga fólki. Einhverjir árekstrar urðu en engin slys. En það var heldur ekki fallegt um að litast í Hveragerði þar sem björgunarsveitir þurftu að annast flutninga skólabarna í allan dag. Í bænum var ekki stætt á milli húsa lengst af dagsins þótt ýmsir létu sig hafa það. Og ekki var ástandið betra í Kömbunum. Þar festi fjöldinn allur af bílum sig og björgunarsveitarmenn þurftu að hjálpa eigendunum og öðrum farþegum til byggða. En þrátt fyrir aftakaveður og að margir sætu fastir í skafli, fykju út af veginum eða þaðan af verra, þá slasaðist enginn sem betur fer.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×