Innlent

Fjölmenni við guðsþjónustuna

Fjölmenni var við minningarguðsþjónustu í Súðavík í dag þar sem þess var minnst að áratugur er frá snjóflóðinu mannskæða. Sumum íbúum þar er órótt þegar veður eru válynd en presturinn segir að aðstoð góðra vina og hjálp hafi hjálpað þeim sem misstu mest að halda lífinu áfram. Minningarguðsþjónustan fór fram í Íþróttahúsinu í Súðavík og voru um 200 manns komnir þar saman til að minnast harmleiksins. Prestarnir Valdimar Hreiðarsson og Magnús Erlingsson þjónuðu fyrir altari. Magnús segir það sýna styrk þeirra sem misstu mest, til dæmis börn, að því fólki hafi tekist að halda lífinu áfram upprétt. Hann segir að strax hafi verið reynt að sinna sálgæslu eins vel og unnt var en slíkt hafi auðvitað verið erfitt og ekki hægt að gera nóg. Aðstoð góðra vina og hjálp hjálpaði fólki við að halda lífinu áfram þrátt fyrir sársauka sem aldrei gleymist að sögn Magnúsar. Barði Ingibjartsson missti móður sína í flóðunum en hún bjó neðarlega í þorpinu og hélt hann að hún væri því óhult. Honum verður enn órótt þegar veður eru válynd. Hann hefur t.d. tekið eftir því að hann sefur aldrei rólegur þegar hann heyrir í miklum vindi. Þá er eins og gamalt sár opnist.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×