Innlent

Íslensk börn fá ekki nóg D-vítamín

Hátt hlutfall íslenskra barna fær ekki nægilega mikið D-vítamín dag hvern að sögn Ingu Þórsdóttur næringarfræðings, sem rannsakað hefur D-vítamínneyslu íslenskra barna. Helmingur fjögurra og sex ára barna og fjórðungur ungbarna náðu ekki helmingi ráðlagðs dagskammtar af vítamíninu meðan á rannsókninni stóð. Reyndust íslensku börnin fá umtalsvert minna af D-vítamíni daglega en sænskir jafnaldrar þeirra að því er fram kemur í grein Ingu í Læknablaðinu. "D-vítamín er nauðsynlegt til þess að eðlilegur beinþroski og beinþéttni verði, sem er nauðsynlegt fyrir framtíðarstyrk beinanna," segir Inga. "Einnig er talið að neysla D-vítamíns sé nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma síðar á ævinni." Inga segir mjög mikilvægt að börn taki lýsi til þess að þau fái nógu mikið af D-vítamíni, einkum og sér í lagi yfir vetrartímann þegar sólarljós er af skornum skammti. "Áður fyrr tók fólk almennt alltaf lýsi yfir vetrartímann," segir Inga. "Nú eru því miður hópar barna sem ekki taka lýsi og fá þar af leiðandi ekki nógu mikið af vítamíninu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×