Lífið

Í svipuðum sporum og móðir sín

Unnur Birna Vilhjálmsdóttir var krýnd Ungfrú Reykjavík í gærkvöldi. Fyrir rúmum tuttugu árum stóð móðir hennar, Unnur Steinsson, í svipuðum sporum þegar hún var krýnd fegursta kona Íslands. Hún segist hafa fengið mikinn fiðring í magann í gærkvöldi. Unnur Birna, sem verður 21 árs í næsta mánuði, var krýnd Ungfrú Reykjavík á Broadway en í öðru sæti varð Ólöf Petra Jónsdóttir og í því þriðja Ingunn Sigurpálsdóttir, sem einnig var kjörin ljósmyndafyrirsæta ársins. Unnur Birna segir að keppnin hafi verið frábær og að allar stelpurnar hafi staðið sig með sóma. Aðspurð hvernig tilfinning það sé að vakna sem fegurðardrottning segir Unnur Birna að hún sé góð. Kvöldið í gær hafi verið frábært. Spurð hvað hún telji skipta mestu máli í fegurðarsamkeppni segir Unnur að það sé sviðsframkoman. Það hafi sýnt sig að það skipti máli ef maður sé vanur að koma fram, en hún hafi dansað mikið og hafi því ekki verið stressuð fyrir það að koma fram á sviðinu. Móðir Unnar Birnu, Unnur Steinsson sem bar titilinn Ungfrú Ísland fyrir 22 árum, segir það hafa verið mjög skemmtilegt að fylgjast með í gærkvöldi. Hún segir viðkennir þó að hún hafi haft mikinn hnút í maganum allt kvöldið og hefði ekki viljað vera að keppa sjálf en þetta hafi verið virkilega gaman. Nú taka við nokkuð strangar æfingar fyrir Ungfrú Ísland hjá Unni Birnu. Aðspurð hvað hún ráðleggi dóttur sinni varðandi framhaldið segir Unnur að mikilvægast sé að hún verði hún sjálf. Hún sé þarna á eigin forsendum, ekki af því hún sé dóttir hennar. Hún verði að hafa gaman af þessu og taka þátt með ákveðnu hugarfari. Fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland fer fram í Reykjavík þann 20. maí næstkomandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.