Innlent

Ný sundlaug í Kópavogi

Ný sundlaug var opnuð í Versölum í Kópavogi á föstudag. Ókeypis var ofan í um helgina og nýttu þúsundir bæjarbúa sér gott boð og skelltu sér í laugina í blíðunni. Sundlaugin átti enda að opna fyrir ári og margir því sjálfsagt orðnir óþreyjufullir. Útilaugin í Versölum er 25 metra löng og svo eru auðvitað pottar af ýmsum stærðum og gerðum, með nuddlegubekkjum og hvaðeina. Að ógleymdri rennibrautinni þar sem krakkarnir mega fara niður á svona gúmmíbelgjum. Hátt í sjö þúsund manns hafa komið í laugina á þessum þremur dögum sem hún hefur verið opin, enda margir kannski orðnir óþolinmóðir. Laugin átti nefnilega að opna fyrir um ári síðan. Guðmundur Harðarson, forstöðumaður Sundlauga Kópavogs, segir að ýmis ljón hafi verið á veginum og ákveðið hafi verið að opna aðeins síðar og hafa þá flesta hluti í lagi. Aðsókn að Sundlaug Kópavogs á Rútstúni hefur verið um hálf milljón gesta á ári en Guðmundur býst við að gestir lauganna tveggja verði samtals um 750.000 á ári. Í haust á líka að opna íþróttasal sem er sérhannaður fyrir fimleikafólk og er kostnaðaráætlun allra mannvirkja upp á um einn og hálfan milljarð króna. Kostnaðaráætlanir og aðsóknartölur voru þó sjálfsagt víðs fjarri huga sundlaugargesta sem greinilega nutu þessara fyrstu sumardaga.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×