Innlent

Korpúlfsstaðir hugsanlega seldir

Þegar nýr Korpuskóli tekur til starfa losnar um pláss á Korpúlfsstöðum þar sem skólinn hefur verið með starfsemi sína. Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, segir að ekkert hafi verið rætt um það innan borgarstjórnar hvað verði gert við Korpúlfsstaði. Menn hljóti að skoða þann möguleika að selja húsið ef gott verð fáist fyrir það. "Ég vil taka það fram að það hefur ekkert verið ákveðið en mér finnst það íhugunarefni að skoða þann möguleika að selja húsið," segir Stefán Jón. "Golfklúbbur Reykjavíkur, sem er með aðsetur í öðrum enda hússins, er með áratuga leigusamning við borgina. Ef menn sjá eitthvað stórbrotið fyrir sér þá hlýtur að vera hægt að losa um þann samning í samkomulagi við klúbbinn. Ég sé til dæmis fyrir mér að þarna geti verið hótel með aðgang að golfvellinum og laxveiðiá. Þetta er náttúrlega bara hugmynd en á næstunni munum við ræða þetta mál." Framkvæmdir við nýjan skóla, sem ráðgert er að kosti um 400 milljónir króna, eru þegar hafnar. Stefán Jón segir að hönnun og hugmyndafræði nýja skólans hafi verið unnin í samkomulagi við íbúana í hverfinu. Borgin muni í auknum mæli hafa slíkt samráð í framtíðinni. Leikskóli verður sambyggður grunnskólanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×