Innlent

Vill ekki sumarhús sem lögheimili

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Suðurlands sem heimilaði fjölskyldu að skrá lögheimili sitt í sumarbústað í sveitarfélaginu. Margeir Ingólfsson, formaður byggðaráðs Bláskógabyggðar, segir að það yrði mjög dýrt fyrir sveitarfélagið að veita fólki lögbundna þjónustu ef opnað yrði á þennan kost. "Við yrðum að auka þjónustuna til muna ef fólk tæki upp á því að flytja lögheimili sín í sumarbústaði í stórum hópum. Við yrðum til dæmis að sinna skólaakstri og heimilishjálp. Við yrðum að leggja gatnagerðargjöld á alla bústaði þar sem við yrðum að byggja upp vegakerfin á sumarbústaðasvæðunum og sinna þeim á veturna." Margeir telur að málið muni hafa fordæmi um allt land vegna þessa. Hann segir að ef Hæstiréttur komist að sömu niðurstöðu þurfi líka að breyta skipulags- og byggingarreglugerðum þar sem aðrar kröfur séu gerðar til íbúðarhúsnæðis en sumarhúsa. Það yrði skrítið að gera ríkari kröfur til íbúðarhúsa ef fólki væri frjálst að skrá sig að vild í sumarbústaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×