Innlent

Verð gæti hækkað tímabundið

Ný húsnæðislán bankanna gætu orðið til þess að húsnæði hækkaði tímabundið í verði á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðaverð gæti hins vegar lækkað aftur og niður fyrir veðsetningu. Þá gæti húseignin rétt hrokkið fyrir lánunum, neyddist fólk til að selja. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir hættu á því að almenningur fari á eyðslufyllerí og hleypi af stað verðbólguaskriðunni. Þar með myndi Seðlabankinn fara af stað með vaxtahækkanir og ríkið þyrfti að draga úr útgjöldum sínum. Þannig myndi sú kjarabót sem fólk fengið með nýjum og betri húsnæðislánum fara fyrir lítið. Tryggvi segir að ef fólk fer í miklum mæli að nýta sér hinar auknu veðheimildir og lágu vexti bankanna í neyslu, þ.e. að kaupa bíl, sumarbústað, breyta heima hjá sér eða hvaðeina, þá mun það valda miklum þrýstingi á verðbólguna. Bankarnir vöruðu mjög sterklega við fyrirætlunum ríkisins um veita öllum níutíu prósent húsnæðislán. Nú bjóða þeir áttatíu prósenta húsnæðislán. Samkvæmt kenningu bankanna sjálfra gætu lánin hleypt upp húsnæðisverði tímabundið með óskemmtilegum afleiðingum. Tryggvi Þór varar við því að fólk fari upp í topp á veðsetningu húsnæðis síns. Það hafi verið mjög mikil þensla á fasteisngamarkaði undanafarin misseri og væntanleaga muni hún aukast ef hin nýju lán drífa áfram verðhækkanir. Tryggvi segir að einhvern tíma taki þetta enda og það gæti fjarað undan veðum þannig að fólk stæði uppi með lán með meira en hundrað prósenta veðsetningu á húsnæði sínu, Það myndi þýða tilheyrandi vandamál fyrir bankakerfi og annað slíkt líkt og gerðist á Norðurlöndunum á tíunda áratugnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×