Innlent

Sprengjueyðingarsveitir með æfingu

Fjölþjóðleg æfing sprengjueyðingarsveita, Northern Challenge 2004, hefst mánudaginn 30. ágúst og stendur til 3. september næstkomandi. Landhelgisgæslan stendur fyrir æfingunni í samvinnu við Varnarliðið. Þetta er í þriðja skipti sem Northern Challenge æfingin er haldin og sú umfangsmesta hingað til. Sérstök áhersla verður lögð á siglinga- og hafnarvernd en nýlega voru samþykkt lög um siglingavernd á Íslandi vegna alþjóðlegra krafna um öryggi skipa, hafna og farmsendinga milli landa. Í þeim tilgangi verða prófaðar aðferðir og tækni til að bregðast við hryðjuverkasprengingum í höfnum og um borð í skipum. Einnig verða æfð viðbrögð við sprengjum á flugvöllum. Flest sviðsettu viðfangsefnanna eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli og í höfnum á Reykjanesi. Að minnsta kosti 130 viðfangsefni verða sett á svið fyrir sprengjusérfræðingana til að bregðast við. Sjö erlendar sprengjueyðingarsveitir taka þátt í æfingunni en þær eru frá Danmörku, Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar sér lögum samkvæmt um sprengjueyðingu á Íslandi og sér einnig alfarið um sprengjueyðingu fyrir Varnarliðið.  Að mati sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar er mjög mikilvægt að halda slíkar æfingar til að viðhalda þekkingu og þjálfun og fylgjast með nýjustu tækni á þessu sviði.  Æfingar eins og Northern Challenge veita sprengjusérfræðingum tækifæri til að starfa við aðstæður sem eru eins raunverulegar og frekast er unnt, prófa tæki og tækni og læra hver af öðrum.  Myndin er frá æfingu Varnarliðsins á Keflavíkuflugvelli fyrir nokkrum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×